139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:49]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er ljómandi gott að vera búin að fá úrskurð hv. þm. Róberts Marshalls um það hvernig þingstörf eigi að ganga fyrir sig. Það sem ég fer fram á er að hæstv. forseti upplýsi þingheim um hve lengi eigi að halda áfram umræðu í kvöld, það er einföld spurning. Það vekur undrun mína að hæstv. forseti sjái enga ástæðu til að svara þingmönnum, bara ekki nokkra ástæðu. Við ættum kannski að rifja upp þá stefnu þingsins sem birtist á vori og sumri 2009 þegar sett var á sérstök nefnd til að gera Alþingi að fjölskylduvænum vinnustað og við skipuðum þingmenn í þá nefnd. Ég veit ekki til þess að sú nefnd hafi starfað mjög mikið, a.m.k. hefur árangur af starfi hennar verið mjög lítill (Gripið fram í.) ef marka má það verklag sem viðhaft er á þinginu.

Það er alveg bráðnauðsynlegt að hæstv. forseti svari þeim spurningum sem til hennar er beint. Það er ósköp einfalt að svara því hversu lengi fundur á að standa í þinginu í kvöld. (Forseti hringir.) Það getur ekki verið vandi fyrir hæstv. forseta að upplýsa þingmenn um það.