139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitthvað hefur hv. þingmaður misskilið orð mín. Ég sagði að sumir hv. þingmenn kölluðu alltaf hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fórnarlambið en ég sæi það ekki þannig fyrir mér. Ég hef ekki haldið því fram að þetta sé gert til að losna við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Ég skil í raun og veru ekki þessar miklu áhyggjur af því ef tveir ríkisstjórnarflokkar eru í samstarfi, að hæstv. forsætisráðherra fari að skipta sér af ráðherravali einstakra ráðherra hins stjórnarflokksins. Ég hélt að það væri þannig að stjórnarflokkarnir hver fyrir sig tilnefndu þá ráðherra sem þeir vildu að settust í ríkisstjórn. Ég hef ekki eins miklar áhyggjur eins og margir hverjir aðrir og ég sagði það meira að segja við 1. umr. að ég sæi ekki allar þessar samsæriskenningar í kringum þetta. Mér þykir leitt ef hv. þingmaður hefur misskilið mig en það sem ég sagði var að aðrir héldu því fram en ég.

Hv. þingmaður segir að samráð og samvinna hafi verið í allsherjarnefnd og ég geri ekki lítið úr því, það er búið að funda mikið um málið í nefndinni. En ég var að benda á það sem kemur fram í nefndaráliti frá hv. þingmönnum Sigurði Kára Kristjánssyni og Birgi Ármannssyni, að kannski hefði verið eðlilegra að leggja mat á það hvernig sameiningin hafi gengið í hinum tveimur ráðuneytunum, hvort við hefðum getað lært eitthvað af því og breytt hér og tekið umræðuna um það, ég hefði getað séð það fyrir mér.

Mér þætti til að mynda mjög áhugavert að ræða hvort menn gætu haft aðstoðarráðherra í þungum ráðuneytum og jafnvel ekki alltaf í sama ráðuneytinu heldur mismunandi eftir málaflokkum. Það hefði kannski verið áhugavert að hafa það þannig í velferðarráðuneytinu til að byrja með meðan menn voru að ná utan um það eða í innanríkisráðuneytinu. Ég velti þessu upp. Það getur vel verið að hv. þingmaður sé ekki sammála mér en mér fyndist þess virði að ræða það og skoða.