139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Úr evrulandinu berast váleg tíðindi. Það er farið að tala um að Grikkland sé í miklum fjárhagsvandræðum og jafnvel farið að tala um gjaldþrot þess og viðbrögð við því. Evran skiptir okkur miklu máli og ég vona sannarlega að þetta fari ekki á versta veg en staðreyndin er sú að evrur streyma núna í skjól til Þýskalands úr öllu Evrópusambandinu. Þýskir og franskir bankar eiga mikilla hagsmuna að gæta í Grikklandi og það er óleyst lagalegt vandamál hvernig á að skilja Grikkland frá evrusamstarfinu.

Þetta mun hafa mikil áhrif hér á landi því að við erum með mikil viðskipti við evrulandið, ætli það fari ekki 70% af útflutningi okkar þangað. Ég spyr þess vegna hv. þm. Helga Hjörvar, formann efnahags- og skattanefndar, hvaða áhrif þessi þróun kunni að hafa á Ísland vegna útflutnings á áli og fiski og svo varðandi ferðaþjónustuna sem byggir mikið á ferðamönnum frá evrulandinu. Hvernig getum við búið okkur undir að þetta fari á þann veg sem farið er að ræða um í Evrópusambandinu sem raunverulegan kost, að það þurfi að kljúfa Grikkland frá evrusvæðinu? Hvernig mun til dæmis innlánstryggingakerfið virka í evrulandinu, mun það halda trausti sparifjáreigenda á banka? Það er mjög mikilvægt að það traust haldi í til dæmis Þýskalandi þar sem Þjóðverjar spara mjög mikið og standa undir fjármagni um alla Evrópu. Það er mjög mikilvægt að þetta traust haldi og ég spyr hv. þm. Helga Hjörvar um afleiðingar þessa á íslenskt (Forseti hringir.) efnahagslíf.