139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er ég kannski í andsvari við rangan aðila þar sem hv. þm Birgir Ármannsson er ekki formaður allsherjarnefndar. Mér þykja þetta ákveðin vonbrigði vegna þess að í greinargerðinni er reynt að lýsa inntaki almennra yfirstjórnunarheimilda ráðherra og ég skil ekki af hverju ekki var reynt að skrifa þetta nánar inn í lögin vegna þess að við ætluðum að draga ákveðinn lærdóm af þeim atburðum sem hér urðu. Meginniðurstaðan var sú að skortur væri á formfestu í stjórnsýslunni og að hver vísaði ábyrgð á annan. Sérstaklega var margoft talað um að ráðherra bæri að tryggja að stofnanir sinntu hlutverki sínu. Ég sé ekki að þessi ákvæði girði fyrir að þau atriði sem fóru úrskeiðis í eftirliti ráðherra fyrir hrunið (Forseti hringir.) geti gerst aftur.