139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:43]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á bls. 42 í greinargerð með frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu felst því í fyrsta lagi skylda forsætisráðherra til að stuðla að skýrri verkaskiptingu á milli ráðherra. Í öðru lagi skylda ráðherra til að samhæfa stefnu og aðgerðir ráðuneyta þegar málefni og málefnasvið skarast og í þriðja lagi skylda forsætisráðherra til að aðstoða ráðherra við samhæfingu stefnu og aðgerða þegar málefni og málefnasvið skarast ef nauðsyn krefur.“

Það sem þarna stendur er svo almennt orðað að ég held að það þurfi að vera algjörlega skýrt hver fagleg ábyrgð hvers og eins ráðherra er, en það vantar hér. Ef málefni skarast, hverra er þá hin fagleg ábyrgð? Hverra er að ljúka máli og hver ber þá faglegu ábyrgð?

Ef það er ekki skýrt hlýtur það, samkvæmt því sem skorið var úr um 28. september 2010, alla tíð að vera á ábyrgð forsætisráðherra. Ef ekki er skýrt og skilmerkilega greint frá því, hver er þá fagábyrgð hvers ráðherra, hvert nær valdsvið hans og hvert ná valdmörkin? Það þarf að vera klárt.

Að öðru leyti ítreka ég að þá gildir það sem skorið var úr um 28. september sl., að ábyrgð forsætisráðherra er alger.