139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á sínum tíma þegar gamla atvinnumálaráðuneytinu var skipt upp var það gert með þeim rökum að þessir atvinnuvegir hefðu þróast það mikið í gegnum tíðina frá því að ráðuneytið varð til að ekki væri lengur rétt að hafa þá undir sama hatti, samfélagið hefði breyst og þessar greinar stækkað og orðið fjölbreytilegri og mikilvægari og umfangsmeiri.

Skýtur þá ekki svolítið skökku við ef menn ætla núna, þegar þessar greinar hafa áfram þróast mjög mikið og eru orðnar enn þá margslungnari, að steypa þeim öllum saman í eitt ráðuneyti? Hefur þingmaðurinn, sé hann sammála mér um þetta, ekki áhyggjur af því að þessi nýju lög, verði frumvarpið samþykkt, verði nýtt í þeim tilgangi að steypa þessum grundvallaratvinnugreinum saman í eitt ráðuneyti?