139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

uppgjör fyrirtækja í erlendri mynt -- Kvikmyndaskóli Íslands -- HS Orka ofl.

[10:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Rétt í byrjun út af Kvikmyndaskólanum, ég fagna því að það er komið annað hljóð í strokkinn hjá stjórnarþingmönnum í þessu máli. Málið fær núna vonandi farsæla lausn því að það er mikilvægt að halda uppi kennslu í kvikmyndagerð eins og Kvikmyndaskólinn hefur sýnt svo sannarlega á umliðnum missirum. Ég vona að þetta mál sé komið í farsælan farveg en að sjálfsögðu mun þingið fylgjast með því hvernig fram vindur.

Aðeins út af evrunni og peningamálastefnunni, ég held að það sé alveg rétt og það hefur margoft verið sagt að við getum ekki búið okkur til valkost fyrr en við erum búin að ná tökum á ríkisfjármálum. Og það er enn svolítið langt í að við uppfyllum til að mynda skilyrði Maastricht-samkomulagsins þannig að við þurfum að vinna í því. Það er ekki þar með sagt að á meðan við vinnum í því megi ekki ræða peningamálastefnuna. Ég held að það sé alveg ljóst að það er ekki lengur hægt að bjóða upp á gjaldmiðil sem býður upp á kollsteypur á fimm til tíu ára fresti fyrir fjölskyldur, heimilin og fyrirtækin í landinu. Þá verðum við, stjórnmálamenn allra flokka, að tala opinskátt og tæpitungulaust um það hvert við viljum fara. Við þurfum að móta stefnu. Þess vegna ítreka ég tillögur okkar sjálfstæðismanna sem við lögðum fram á árinu 2009 um að skipa hóp til að fara yfir það hver peningamálastefna okkar til lengri tíma á að vera.

Það sem skiptir mestu máli er að við í þinginu sköpum valkosti, hvort sem er í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu og ekki síst í efnahagsmálum þjóðarinnar. Við þurfum að búa til valkosti fyrir þjóðina til að hún geti áttað sig á því hvaða gjaldmiðil við tökum upp til lengri tíma og hvaða peningamálastefnu við viljum rækta til lengri tíma litið. Það er okkar skylda og þess vegna held ég að við eigum að sameinast um að skipa hóp með fulltrúum allra flokka sem móti peningamálastefnu til lengri tíma. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að við verðum að fara að setja niður hvert við stefnum, ekki bara til næstu tveggja ára heldur til lengri tíma litið.