139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[15:17]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hafandi verið á þeim fundum í gær um lausn á þessum málum veit ég það frá fyrstu hendi að ekki er mikið sem ber á milli heldur er einhvers konar þvermóðska sem situr í mönnum. Komið var umtalsvert til móts við tillögur stjórnarandstöðunnar í málinu. Ég tel okkur í Hreyfingunni tilheyra hvorugu liðinu í því og er því fyllilega dómbær á það. Það sem stendur út af er 2. gr. í frumvarpinu um Stjórnarráðið. Þar hefur komið fram breytingartillaga, þar á meðal frá tveimur þingmönnum Framsóknarflokksins og ég vil nota tækifærið og þakka þeim kærlega fyrir því að hún heggur á mjög erfiðan hnút.

Hvað varðar frumvarpið um gjaldeyrishöft er það mál sem efnahags- og skattanefnd gæti leyst með einum fundi í nefndinni. Þar eru komnar fram tillögur sem enginn í nefndinni er raunverulega á móti. Það þarf einfaldlega að halda þann fund og halda svo áfram með málið og klára það.

En að halda áfram á þessum nótum eins og var gert í gærkvöldi og í nótt og í fyrrinótt með málþófi er til skammar og ég held að þingmenn ættu ekki að gera það.