139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna.

[16:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum afskriftir banka og fjármálastofnana á skuldum heimilanna. Ekkert ríki í Vestur-Evrópu hefur gripið til jafnvíðtækra aðgerða til hjálpar skuldugum heimilum og gert hefur verið hér á landi. Það er fjórða hver króna sem landsmenn greiða í vexti af húsnæðislánum sínum endurgreidd úr ríkissjóði. Samkomulag milli ríkisins og lánastofnana um lækkun skulda heimila hefur hjálpað þúsundum heimila og á annað hundrað milljarðar hafa verið afskrifaðir af skuldum heimila í kjölfar þessa. Þúsundir heimila hafa nýtt sér allar þær leiðir sem boðið hefur verið upp á hingað til til skuldalækkunar og leiðréttinga. Reglum Íbúðalánasjóðs var breytt til að lækka greiðslubyrði skuldara. Nú stendur til að bjóða óverðtryggð lán og er unnið að því. Dráttarvextir hafa verið lækkaðir. Greiðslujöfnun íbúða- og bílalána lækkaði greiðslubyrði heimila umtalsvert. Sértæk skuldaaðlögun lækkaði greiðslubyrði verulega. Heimilum stóð til boða að frysta lán á meðan reynt var að leysa úr vanda þeirra. Gjaldþrotalögum hefur verið breytt. Stýrivextir hafa lækkað úr 18% í 4,5% á tveimur árum. Svo segja menn að ekkert hafi verið gert. Menn geta ekki talað svona.

Í kjölfar kreppunnar hefur eigið fé heimila rýrnað mikið, líkt og í fyrirtækjum í landinu. Kreppan bitnar á okkur öllum sem þjóð. Við getum ekki horft fram hjá því. Erfiðleikar hafa verið miklir hjá heimilum og fjölskyldum landsins við að glíma við erfiða skuldastöðu. Við skulum ekki gleyma því að mikill árangur hefur náðst sem ekki er sjálfgefinn. Áfram verður unnið að bættri stöðu heimila í landinu. Við erum á réttri leið þótt alltaf sé hægt að segja að ekki sé nóg að gert.