139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún var ekki síðri en aðrar þær ræður sem hún hefur haldið um þetta mál og ég hlustaði á ræðuna af mikilli gaumgæfni.

Ég hjó sérstaklega eftir því í máli hv. þingmanns þegar hún talaði um stóru myndina og stærri breytingar sem hún vildi sjá í því að styrkja löggjafarvaldið og styrkja þingið gegn framkvæmdarvaldinu.

Hv. þm. Pétur Blöndal viðraði í gær ákveðna hugmynd sem sneri að því að Alþingi sjálft smíðaði lagafrumvörp. Ég og hv. þingmaður eigum sæti í félagsmálanefnd þar sem þetta hefur í grunninn verið gert í mjög stórum málum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að við ættum að stíga þetta skref bara almennt í þinginu (Forseti hringir.) og hvernig við gætum náð því fram og stigið það skref.