139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:05]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Það skyldi þó aldrei vera að það geti orðið til þess að höggva á hnútinn og leysa málið að láta friðardúfurnar, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson og Ragnheiði Elínu Árnadóttur, formenn þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna tveggja, fá aðkomu að þessu máli. (Gripið fram í.) Úr því að formönnum flokkanna hefur ekki tekist það á nokkrum fundum (Gripið fram í.) held ég að það hljóti að vera að þessir annáluðu friðarmenn geti komið með einhverja lausn á málinu. Ég er tilbúinn að hlusta á hvað það gæti verið umfram það sem þegar hefur verið rætt. Ég veit reyndar ekki fyrir hvaða hluta Framsóknarflokksins hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson væri þá að tala. Ekki væri það fyrir allan þingflokk Framsóknarflokksins, ekki miðað við það sem farið hefur fram í dag. (Gripið fram í.) Hann gæti þá samið fyrir það flokksbrot sem dansar við trommuslátt Sjálfstæðisflokksins í þessu máli.