139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það bregst ekki að hv. þm. Róbert Marshall kemur hér upp til að greiða fyrir þingstörfum þegar rætt er um fundarstjórn forseta og leggur alltaf sitt af mörkum til að lægja öldurnar frekar en að ýfa þær upp. (Gripið fram í.)

Varðandi dagskrá fundarins og skipulag þingstarfsins hér eftir finnst mér að við eigum að líta á það sem ákveðið viðfangsefni. Við erum með ákveðinn fjölda mála. Við höfum ákveðinn tíma til ráðstöfunar. Við eigum að meta með raunhæfum hætti hvernig við getum lokið þeim málum sem brýn eru út frá einhverjum dagsetningum, út frá einhverjum utanaðkomandi tímaþáttum sem knýja okkur til að taka afstöðu. Við eigum jafnframt að ljúka þeim málum sem gott samkomulag er um, en auðvitað eigum við að ýta vandamálunum til hliðar ef ekkert (Forseti hringir.) knýr á um umræður um þau mál.