139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að á þessu þingi og í þessu máli kann ég betur við trommuslátt Sjálfstæðisflokksins en gítarglamur Samfylkingarinnar. Ég ítreka að það er forseti þingsins sem ber ábyrgð á þingstörfum. Ef þingið fer allt í vitleysu og er í tómu klúðri er það á ábyrgð forseta þingsins. Ef þingið og forseti þingsins ætla að nota þann tíma sem við höfum til að sinna áhugamálum forsætisráðherra — ég kalla það mál sem við ræðum nú áhugamál forsætisráðherra, það er varla þingmál, það hlýtur að vera áhugamál — erum við í vondum málum. Þá þurfum við að gera einhverjar breytingar á þingstörfum, þingsköpum og stjórn þingsins. Ef svo er þarf klárlega að skýra getu löggjafans til að standa uppi í hárinu á framkvæmdarvaldinu, í þessu tilfelli forsætisráðherra.

Ég verð að segja að mér þykir það mjög snúið og erfitt (Forseti hringir.) að tala um mál með þessum hætti. Ég skil ekki, frú forseti, að hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) skuli festa sig við það að leggja (Forseti hringir.) fram og keyra í gegn frumvarp til breytinga á Stjórnarráðinu í stað þess að koma með málið sem hún hefur talað (Forseti hringir.) um nánast alla ævi, verðtrygginguna. Þar er hún að svíkja (Forseti hringir.) íslensk heimili.