139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér endurtekur sagan sig, það er eins og sumum hv. þingmönnum stjórnarliðsins sé ekki sjálfrátt, þeir geta ekki komið í ræðustól Alþingis öðruvísi en að vera með einhvern skæting. Það heyrðist best á málflutningi hv. þm. Róberts Marshalls áðan. Ég verð að segja að málið er í ógöngum og algjörlega óásættanlegt fyrir alla að slík vinnubrögð skuli vera viðhöfð í þinginu. Ég hvet virðulegan forseta til að gera nú hlé á umræðunni, að kæla málið aðeins og þá sem verið hafa hvað orðhvassastir í því, og taka á dagskrá þau mál sem eru brýn og miklu meiri samstaða er um að leysa á skömmum tíma svo við komum störfunum í eðlilegt horf. Það getur ekki verið eðlilegt að (Forseti hringir.) þingflokksformenn hafi ekki verið kallaðir til fundar síðan á mánudaginn í þessari viku. (Forseti hringir.) Ég hvet forseta til að stöðva umræðuna, (Forseti hringir.) boða fund með þingflokksformönnum og koma öðrum málum á dagskrá.