139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er búinn að svara fyrri spurningunni sem ég ætlaði að beina til hans, hvort það sé rétt sem getur um bæði í frumvarpinu og nefndaráliti meiri hlutans að þetta frumvarp sé byggt á skýrslum rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar. Það sem mig langar þá til að spyrja hv. þingmann er um það sem kemur fram á síðu 15 í greinargerð með frumvarpinu. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Það að einstakir ráðherra sitji í skjóli forsætisráðherra birtist í því að forsætisráðherra hefur stjórnskipulegt vald til að gera tillögu til forseta um að einstakir ráðherrar verði leystir frá embætti. Tillögu um slíkt þarf þó fyrst að bera upp í ríkisstjórn eins og önnur málefni sem bera þarf undir forseta til staðfestingar. Forsætisráðherra er þó ekki bundinn af afstöðu ríkisstjórnar til tillögunnar en þarf þó jafnan að gæta að því að ákvörðun kann að hafa áhrif á afstöðu Alþingis til ríkisstjórnarinnar …“

Það sem hér er verið að segja, frú forseti, er að forsætisráðherra getur tekið einstök málefni eins og Evrópusambandið undan landbúnaðarráðuneytinu, tekið það til sín í forsætisráðuneytið og tekið svo ákvörðun sjálfur.