139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sýnir best einræðistakta hæstv. forsætisráðherra að þegar frumvarp mitt og fleiri var komið fram í þinginu, frumvarpið um lagaskrifstofu Alþingis, brást hæstv. forsætisráðherra við með þeim hætti að hún stofnaði lagaskrifstofu Stjórnarráðsins. Það var ekki innihald frumvarpsins. Varðandi þá hugmynd sem þingmaðurinn reifar, að við fáum lögfræðiteymi ráðuneytanna allra hingað til að vinna á lagaskrifstofu Alþingis, þá er það að sjálfsögðu hægt, sérstaklega í ljósi þess að Alþingi hefur fjárlagavaldið og ætti að hafa þetta í hendi sér. En Alþingi er kúgað af framkvæmdarvaldinu og það hefur oft komið fram.

Þetta er góð hugmynd og ég treysti því að þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ásamt kannski einhverjum fleiri flokkum fara í ríkisstjórn verði það forgangsmál að styrkja Alþingi og leggja til þess meira fjármagn og veikja um leið lagaskrifstofu Stjórnarráðsins.

Ég fagna því að hæstv. (Forseti hringir.) sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er sestur í salinn og ég óska þess innilega að hæstv. ráðherra komi hér upp og tjái sinn hug því að hann er á (Forseti hringir.) móti frumvarpinu.