139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hljóti að fara að verða augljóst mál öllum sem hafa farið í þessa umræðu og fylgst með henni að það sem verið er að gera hér er a.m.k. í veigamestu atriðum hvorki í samræmi við tillögur rannsóknarnefndar Alþingis né þingmannanefndarinnar. Hins vegar skipaði hæstv. forsætisráðherra sérstaka nefnd sem lagði til það fyrirkomulag sem við erum svo mjög búin að ræða hér um.

Ég vakti athygli á því sem mér finnst skipta miklu máli og sæta heilmiklum tíðindum, að meiri hluti hv. allsherjarnefndar komst að þeirri niðurstöðu að frumvarpið eins og það var lagt fram upphaflega, með því að tilgreina fjölda ráðuneyta, stangaðist á við stjórnarskrá. Þess vegna hefði ég gjarnan viljað fá svör frá hæstv. forsætisráðherra um það með hvaða hætti þetta sérstaka atriði hefði verið undirbúið og hvort skoðað hefði verið sérstaklega að það (Forseti hringir.) kynni að stangast á við stjórnarskrá. Ég held að það geri það ekki, en mér finnst það vera þess eðlis að gott væri að hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra svaraði því fyrir mig.