139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:35]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er mikið gleðiefni að sjá að hv. þm. Kristján L. Möller sitji hér sem hæstv. forseti. Hæstv. forseti er frá Siglufirði eins og ég og Siglfirðingar þykja úrræðagóðir á mörgum sviðum. Nú er mikilvægt að í stólnum sitji úrræðagóður einstaklingur eins og hæstv. forseti.

Við höfum verið að reyna að fá það fram hjá þeim forsetum sem setið hafa hér í kvöld hvenær ljúka eigi þessum þingfundi. Það er heilmikill óróleiki í fólki og óöryggi sem stafar af því að síðasti hæstv. forseti sem sat á forsetastóli sagði að við ættum ef til vill von á því að funda fram til morguns og jafnvel fram að þeim tíma sem nefndafundir hefjast. Ég vil því spyrja hæstv. forseta í mikilli einlægni hvað hann ætli sér að halda fundinum lengi áfram þannig að við getum skipulag tíma okkar og störf á morgun því að nú vantar klukkuna 20 mínútur í þrjú og mikilvægt fyrir okkur að fá þessa hluti á hreint. Ég er þess fullviss að hæstv. forseti mun (Forseti hringir.) svara þessum spurningum skýrt og greinilega.