139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni og ég treysti því og trúi að hæstv. forseti sjái að það hlýtur að vera hægt að gera þetta örlítið betur þegar hann skoðar málið grannt og veitir því alla þá athygli sem hann hefur að geyma.

Ég vil líka nefna annað atriði í þessu samhengi. Eins og hér hefur komið fram er komið langt fram yfir miðja nótt og nú er það þannig að sum okkar, m.a. sú er hér stendur, þurfa að ferðast um langan veg til að komast heim til þess að rétt skipta um föt og koma aftur á fund Þingvallanefndar í fyrramálið eins og hér hefur komið fram. Þá er það spurningin um umferðaröryggi sem ég veit að hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra er mjög mikill áhugamaður um. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. forseti geri ekki allt sem í hans valdi stendur (Forseti hringir.) til að tryggja öryggi á vegum landsins með því að fara að slíta þessum fundi hér.

(Forseti (KLM): Forseti er nokkuð viss um að það er lítil umferð á Reykjanesbrautinni um þessar mundir.)