139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég virði það að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir hefur ekki tíma til að fara efnislega yfir alla þá þætti sem ég nefndi í ræðu minni í stuttu andsvari. Ég bíð bara spenntur eftir því að heyra það sem hún hefur fram að færa varðandi þessi atriði.

Það er alveg rétt að meðal þeirra atriða sem ég nefndi í upptalningu minni, meðal þessara 12 greina sem ég tel að þurfi nánari skoðunar við, fyrir utan 2. gr., eru sum atriði léttvæg, ef við getum orðað það svo, eða tæknileg atriði sem lítið mál á að vera að leysa en önnur atriði eru flóknari og kostar ef til vill meiri pólitíska vinnu að komast að niðurstöðu um. Þetta eru bæði stór atriði og smá en ég tel að þeim þurfi öllum að gefa gaum áður en málið verður afgreitt.

Ég verð að játa það, hæstv. forseti, að ég man ekki alveg hvernig ég greiddi atkvæði um þá breytingu á stjórnarráðslögunum sem afgreidd var hér. (VBj: Ekki stjórnarráðslögunum … siðareglur.) Það varð breyting á stjórnarráðslögunum þegar heimildin til að setja siðareglur var sett inn í þau, þá fylgdi það ákvæði með sem hv. þingmaður vitnar til. Ég ætla ekki að deila um það en auðvitað hljótum við að velta því fyrir okkur þegar við förum yfir þennan lagatexta og þetta frumvarp núna hvort orðalagið sé með öllu gott. Hafi ég tekið þátt í því að afgreiða þetta í einhverju ógáti á síðasta þingi þá lít ég svo á að við höfum tækifæri til að laga það núna.