139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tekið þátt í þeim skemmtilega dagskrárlið á þinginu sem heitir um fundarstjórn forseta, sem er þó skemmtilegri en margar ræðurnar sem hér eru haldnar. Ég hef ekki farið í mörg andsvör, þó einhver, í þeirri umræðu á þeim dögum sem hún hefur staðið. Ég taldi mig hafa beðið um að fá að fara í andsvar við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson með samþykki forseta.

Mér kom það verulega á óvart að þingflokksformaður Framsóknarflokksins skyldi reyna að hafa áhrif og hafði áhrif á störf þingsins með því að efast um réttmæti þess að ég gæti farið í þá umræðu. Það finnst mér ekki góður bragur á af hálfu þingflokksformanns Framsóknarflokksins, að hann skyldi reyna að hefta eðlilega umræðu um það mál sem verið er að ræða um, fyrst að kvarta yfir því að fundur standi lengi, síðan að óska eftir því að málið verði rætt til þrautar og síðar að kvarta yfir því að þingmenn fari í andsvör við formann flokksins. Þetta er algerlega fáheyrt, virðulegi forseti, og þingflokksformanni til skammar.