139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að hvetja hæstv. forseta til að taka eftirfarandi upp á næsta forsætisnefndarfundi: Í fyrsta lagi, til hvers í ósköpunum er forseti þingsins að gefa út starfsáætlun þingsins? Ég sé akkúrat engan tilgang í því (PHB: Hvað með stjórnar...?) vegna þess að það er ekkert farið eftir starfsáætlun þingsins. Ég sé enga ástæðu fyrir forseta þingsins að senda út starfsáætlun. Það er miklu nær að fá skeyti frá hæstv. forsætisráðherra, eins og við upplifum núna, um hvernig þinginu eigi að vera stjórnað. Sú dapurlega staðreynd blasir því miður við okkur. Þetta er alveg með ólíkindum. Þetta mál sem mesti styrinn stendur um, þ.e. það dagskrármál sem við ræðum núna, er akkúrat ekki neitt dagsetningarmál. Það er ekki dagsetningarmál. Það er engin (Forseti hringir.) þörf á því að klára það núna nema um það náist samkomulag.