139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason gladdi okkur með skemmtilegu inngripi í þær þingræður sem hér eru haldnar. Fyrir utan leikræna tilburði nefndi þingmaðurinn þann tíma sem við erum búin að tala. Reyndar hefur gengið á ýmsu við að fá fram réttar tölur í því en mér sýnist, svo ég spari þingmanninum að þurfa að sökkva sér ofan í það, að miðað við gildandi þingsköp og hversu lengi umræðan getur staðið, þá þurfi hver þingmaður sem hér hefur talað fyrir hönd stjórnarandstöðunnar ekki að tala nema í rúma 16 klukkutíma til að ljúka málinu. Það er í sjálfu sér leikur einn, miðað við það sem við þekkjum frá hæstv. forsætisráðherra, að tala í slíkan tíma. Ef þingmaðurinn er að velta fyrir sér hvenær umræðum lýkur þá er það ekki meira en þetta.