139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[15:07]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég sagði áðan að fram hefðu komið margar spurningar og að mörgum þeirra hefði verið beint til hæstv. ráðherra, annars vegar hæstv. forsætisráðherra og hins vegar hæstv. fjármálaráðherra.

Hv. þm. Atli Gíslason hélt góða ræðu í gær þar sem hann fór vel yfir þessi mál og beindi mörgum spurningum til hæstv. fjármálaráðherra, m.a. um hvers vegna hæstv. fjármálaráðherra hefði tekið algera U-beygju í þessu máli og af hverju hann berðist nú fyrir því að flytja valdheimildir frá Alþingi Íslendinga til hæstv. forsætisráðherra. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra sé í fyrsta lagi í húsi og í öðru lagi sé hér og taki þátt í umræðunum. Ég vil hvetja til þess að hæstv. forseti ræði við hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um að þau setji sig á mælendaskrá og (Forseti hringir.) taki til máls. Ég er sannfærður um að það gæti stytt umræðurnar og gefið svör við mörgum af þeim miklu og alvarlegu spurningum sem uppi (Forseti hringir.) eru í málinu.