139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Þetta er nú að verða alllöng umræða. Mikið á þó eftir að koma fram enn. Það sem maður saknar auðvitað í upphafi er að hæstv. ráðherrar, hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hæstv. innanríkisráðherra, allir þessir ráðherrar hafi með einum eða öðrum hætti tjáð sig um þetta mál. Eðlilegt væri að hæstv. forsætisráðherra væri í salnum vegna þess að það er sá ráðherra sem leggur málið fram og fær þær valdheimildir sem frumvarpið felur í sér. Það væri heldur ekki óeðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra væri í salnum vegna þess að hann er forustumaður hins stjórnarflokksins. (Gripið fram í: En Höskuldur Þórhallsson?) Síðan hv. þingmaður (Gripið fram í: … … umræðuna?) Helgi Hjörvar, það væri mjög fróðlegt að heyra sjónarmið hans (Gripið fram í: Hann er …) eða fá ræðu frá hv. þm. Merði Árnasyni sem er búinn að taka virkan þátt í andsvörum en hefur haldið þeim mun færri ræður. Það væri fróðlegt að fá álit hv. þm. Helga Hjörvars á þessu frumvarpi. (Gripið fram í: Hann skilar …) Vandinn er sá, herra forseti, að þessir ágætu hv. þingmenn taka ekki þátt (Gripið fram í.) í umræðunni. Það er búið að setja fram fjölda spurninga. Hér hélt hv. þm. Atli Gíslason til að mynda prýðisgóða ræðu í gær og fór mjög yfirvegað og grundigt yfir það af hverju hann teldi að það væri beinlínis rangt að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp.

Mig langar, herra forseti, að fá upplýsingar um það hvenær forsætisráðherra væri væntanleg hingað í salinn, vegna þess að ég hugðist beina ákveðnum spurningum til hæstv. forsætisráðherra. (Gripið fram í: Hún taki þátt í umræðunni, það er ekki nóg að hún komi í salinn.) Hvenær er hæstv. forsætisráðherra væntanleg í salinn? Megum við eiga von á því að hæstv. forsætisráðherra komi í salinn kl. 7? Verður hæstv. forsætisráðherra komin í salinn áður en ég næ að ljúka ræðu minni? Ég er mjög rólegur en ég er með spurningar til hæstv. forsætisráðherra sem snúa að því af hverju hæstv. forsætisráðherra, í framhaldi af þingsályktun vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar, kemur hér fram með frumvarp sem felur í sér tilflutning á völdum frá Alþingi til hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórnar. Og hvernig hyggst hæstv. forsætisráðherra nýta sér þær valdheimildir sem hún er að falast hér eftir?

Eigum við von á því, herra forseti, að hæstv. forsætisráðherra komi hingað í salinn? Og er hæstv. forsætisráðherra í húsi? Ég get beðið rólegur, herra forseti, eftir því að hæstv. forsætisráðherra komi í salinn og taki þátt í umræðunni. Þetta eru mikilvægar spurningar sem hæstv. forsætisráðherra þarf að svara. Hvernig ætlar hæstv. forsætisráðherra að nýta sér þær valdheimildir sem frumvarpið felur í sér?

Það er ágætt að rifja það upp meðan við bíðum að það hefur jú áður gerst á hv. Alþingi að þingmenn bíði eftir því að hæstv. ráðherrar komi í salinn. Þetta gerði Steingrímur Hermannsson á sínum tíma þegar hann beið eftir því að hæstv. ráðherrar kæmu í hús. Er það kannski svo að hæstv. forsætisráðherra er ekki í húsi á meðan umræðan fer fram? Hæstv. forsætisráðherra er í húsi meðan umræða fer fram. En má vænta þess að hæstv. forsætisráðherra komi og svari þeim spurningum sem ég hugðist beina til hennar og sneru að því hvernig hæstv. forsætisráðherra ætlar að nýta sér þær valdheimildir sem hún er að falast eftir að fá með frumvarpinu?

Þetta er einmitt vandamálið, herra forseti, forsætisráðherra svarar ekki þeim spurningum sem beint er til hennar. Eigum við von á því að hæstv. forsætisráðherra taki þátt í þessari umræðu?

(Forseti (KLM): Er hv. þingmaður að óska eftir nærveru hæstv. forsætisráðherra?)

Hv. þingmaður, svo það fari ekki milli mála, óskar eftir nærveru hæstv. forsætisráðherra við umræðuna þannig að hv. þingmaður, sá sem hér stendur, geti beint spurningum til hæstv. forsætisráðherra sem ítrekað hafa komið fram í umræðunni og snúa að því hvernig hæstv. forsætisráðherra hyggst nýta þær valdheimildir sem hún óskar eftir með frumvarpinu og ganga þvert gegn því sem rannsóknarnefnd Alþingis og þingmannanefndin, í framhaldinu formaður þingmannanefndarinnar, töldu rétt.

(Forseti (KLM): Forseti vill geta þess að þessum boðum hefur verið komið til forsætisráðherra.)

Á meðan við bíðum eftir því að hæstv. forsætisráðherra komi í salinn er ágætt að rifja það upp að ég hef í andsvörum og fyrri ræðum bent á að ég vilji koma spurningum á framfæri til hæstv. forsætisráðherra en hæstv. forsætisráðherra hefur einfaldlega neitað að taka þátt í umræðunni. Mikilvægt er að fá svör við þessum spurningum hjá hæstv. forsætisráðherra en hún lætur ekki sjá sig.

Ég óska eftir því, hv. forseti, að vera settur aftur á mælendaskrá og óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra verði í salnum þegar sú ræða fer fram.