139. löggjafarþing — 164. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:27]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, varaformanni Framsóknarflokksins, fyrir snjalla ræðu og með beittari ræðum í umræðunni um það mikilvæga mál sem stjórnarráðsmálið gengur út á. Það er kannski ekki nema von að fylgi Framsóknarflokksins sé að styrkjast þegar maður heyrir svona ræðu. En það er önnur saga, það má ekki styrkjast allt of mikið heldur.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að við sjáum að það er hægt að breyta ráðuneytum án tiltölulega mikillar fyrirhafnar. Það þarf að fara fyrir þingið en við höfum séð margoft á síðustu árum að það er hægt. Dæmi: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, tryggingamálin flutt úr heilbrigðisráðuneytinu í félagsmálaráðuneytið o.s.frv. Þetta er hægt. Málaflokkar innan ráðuneyta eins og landbúnaðarháskólarnir sem voru færðir í menntamálaráðuneytið á sínum tíma, Umhverfisstofnun og ýmsar stofnanir settar undir umhverfisráðuneytið. Það er vel hægt að nýta þá skilvirkni sem er í núverandi kerfi. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Af hverju telur hann að ríkisstjórninni liggi svona mikið á þessu máli þannig að við erum í ræðuhöldum hér dag eftir dag þegar brýnni mál bíða? Það er engin dagsetning í þessu máli. Það er ekkert sem knýr á, eitthvað eitt sem segir: Þetta mál verður að klárast af því að. Af hverju heldur hv. þingmaður að ríkisstjórninni liggi á þessu máli og vilji knýja það í gegn með því offorsi sem hún gerir, því offorsi að við getum ekki talað og rætt önnur mikilvæg mál?

Ég vil spyrja hv. þingmann í öðru lagi, því að það er rétt, ég tek undir það, að hv. þm. Atli Gíslason flutti hér merkilega ræðu sem var mikilvægt innlegg inn í umræðuna alla og sýnir að málflutningur ríkisstjórnarinnar, ekki síst hæstv. forsætisráðherra, er vægast sagt veikur og allar stoðir þessarar röksemdafærslu veikar af því að ekki er bara verið að vísa í rannsóknarnefnd Alþingis heldur líka þingmannanefndina sjálfa: Af hverju (Forseti hringir.) koma ekki aðrir þingmenn bæði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hingað upp og ræða álit Atla Gíslasonar á þessu máli? (Forseti hringir.) Mér sýnist að hv. þm. Atli Gíslason hafi gefið þessu frumvarpi algera falleinkunn.