139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[23:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það hefur verið ánægjulegt að hlýða á þessa umræðu um ný sveitarstjórnarlög, tónninn hefur verið jákvæður og menn hafa talað um þessi mál af mikilli kunnáttu enda margir þingmenn á Alþingi sem hafa reynslu af sveitarstjórnarmálum og þekkja mjög vel til þeirra mála.

Það eitt stendur upp úr í þessari umræðu að allt ferlið frá því hafist var handa um að smíða þessi lög hefur verið mjög opið og gagnsætt. Það hefur tekið langan tíma, var sett snemma á netið, fór í langt og ítarlegt og vandað umsagnarferli og síðan hefur samgöngunefnd Alþingis, sem fer með sveitarstjórnarmál, setið yfir frumvarpinu sumarlangt og átt góða opna viðræðu við innanríkisráðuneytið um þessi mál. Allt er þetta mjög gott. Það er nefnilega mjög mikilvægt að það séu opnar umræður um málið og það gefist tóm til að ígrunda þau sjónarmið og þær tillögur sem fram koma. Þess vegna brá mér óneitanlega svolítið í brún þegar ráðuneytinu bárust í kvöld kl. hálfníu, fyrir þremur og hálfri klukkustund, tillögur um grundvallarbreytingar á einni grein frumvarpsins sem ég tel vera lykilatriði þess. Það er sú grein sem fjallar um íbúalýðræði.

Við skulum ekki gleyma því að sveitarstjórnarlög eru eins konar stjórnarskrá fyrir sveitarstjórnarstigið. Sveitarstjórnarlögin eiga að tryggja réttindi og stöðu sveitarfélaganna og sveitarstjórna, en líka íbúanna. Þarna kann stundum að vera togstreita á milli. Þess vegna gengur það náttúrlega ekki að koma á síðustu klukkustundum með grundvallarbreytingar á lagaákvæði sem snýr að grundvallarréttindum íbúa sveitarfélaganna og ætla síðan í fyrramálið á lokaklukkustundum þingsins að fá það samþykkt umræðulaust eða umræðulítið. Við sem erum búin að vera í þessu langa, ítarlega og vandaða ferli getum varla sætt okkur við slík vinnubrögð, það geri ég ekki. Þess vegna finnst mér harla undarlegt að þetta skuli koma fram á þessu stigi.

Ég vil líka ítreka að þegar um það er rætt að tryggja stöðu íbúa í sveitarfélögum, eins og í Reykjavík, þannig að þeir njóti sömu lýðræðislegu réttinda og fólk í öðrum sveitarfélögum með tilliti til fjölda sveitarstjórnarfulltrúa þá er verið að horfa á málin út frá stöðu fólksins. Það er verið að jafna réttindi að þessu leyti og sveitarstjórnarlög eru tvennt í senn, vörn fyrir íbúana og fyrir sveitarstjórnirnar. Nú kunna menn að vera ósammála mér hvað snertir hvernig eigi að skipa þessum málum. Ég veit ekki hvaða afstöðu samgöngunefnd þingsins tekur í málinu á morgun en það er að sjálfsögðu þingið sem ræður á endanum. En sú krafa sem við hljótum að reisa á hendur nefndinni er að hún vinni opið og engin undirmál séu í þeirri vinnslu og ekki sé komið á lokastigi með breytingar á grundvallarþætti laganna, sem allar götur frá því að þetta frumvarp kom fram hefur verið lögð áhersla á af minni hálfu að beri að virða í hvívetna. Ég hefði viljað taka þá umræðu. Ef menn ætla sér virkilega að takmarka réttindi fólks til lýðræðislegra kosninga þarf að sjálfsögðu að taka þá umræðu.

Ég vil segja þetta á þessari stundu. Ég var að fá þessar tillögur í hendur núna. Þær voru sendar til innanríkisráðuneytisins í kvöld kl. hálfníu, tillögur um að gera grundvallarbreytingar sem takmarka lýðræðisréttindi, einn af grunnþáttunum í þessu frumvarpi. Ég vil á þessu stigi koma því sjónarmiði mjög sterklega til skila til nefndarinnar að það er vægast sagt mjög umdeilt (Forseti hringir.) af minni hálfu.