139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[09:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna dagskrár þessa fundar. Ég sé að það eru horfin út nokkur þjóðþrifamál sem hér voru á dagskrá í gær, m.a. lögfesting mengunarbótareglunnar. Ég óska hins vegar eftir því að hæstv. forseti skýri þingheimi frá því af hverju mál frá hv. viðskiptanefnd um vátryggingar ökutækja er ekki á dagskrá þessa fundar.

Þetta er mikilvægt mál, frú forseti. Ekki aðeins er hér um að ræða innleiðingu á tilskipun sem er komin fimm mánuði fram yfir síðasta frest heldur er um að ræða mikilvægt öryggismál fyrir alla vegfarendur í þessu landi. Sjö þúsund ökutæki eru óvátryggð og þar með óskoðuð í umferð hér á landi og þau eru stórhættuleg. Mestur hluti vinnu nefndarinnar hefur einmitt farið í að tryggja umgjörð og verklag til að koma þessum hættulegu ökutækjum annaðhvort úr umferð eða í tryggingu og skoðun. Það er grafalvarlegt, frú forseti, ef Alþingi fær ekki tóm til að ljúka þessu máli og kallar á skýringu frá hæstv. forseta.