139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[15:46]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir fundarstjórn forseta og ég held að það sé best að halda áfram með dagskrána eins og hún liggur fyrir. Ég veit ekki hverjum datt í hug að setja upp störf þingsins þannig að einhver bunki af málum yrði afgreiddur á þessum septemberstubbi. Ég vona að við gerum þetta aldrei aftur vegna þess að þessir dagar hafa fullkomlega farið í súginn að mestu leyti. En ef það eru mál sem eru svo brýn að ráða þurfi lyktum þeirra nú á þessum dögum þá er fyrir mitt leyti ekkert því til fyrirstöðu að við komum saman á mánudaginn og höldum þeirri vinnu áfram. Það er ekkert að gerast hjá mér sem kemur í veg fyrir það að ég geti fundað á mánudag, þriðjudag, miðvikudag eða fimmtudag. Af hverju í ósköpunum er þessi tímapressa? Hvað liggur fólki á? Höldum bara fund á mánudag og þriðjudag og klárum þau mál sem þarf að klára. Búið er að vinna þau og ekkert sem liggur á að við förum að slíta þingi á laugardegi, að vera að vinna hérna mál í belg og biðu í tímaþröng. Það er fullkominn óþarfi og bara heimatilbúin krísa sem er orðin til af ástæðu sem við vitum vel af hverju er.