139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[15:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að þurfa að koma undir þessum lið eftir hvern lið sem er á dagskránni, en ósk mín er einfaldlega sú hvort hæstv. forseti geti upplýst mig um hvers vegna það mál, sem ég hef verið að kalla eftir ásamt mörgum öðrum hv. þingmönnum, var ekki tekið á dagskrá, þ.e. mál nr. 13 á dagskrá fyrri fundar. Búið er að upplýsa að þetta mál var ekki tekið fyrir á fundi með formönnum þingflokka þar sem dagskrá þingsins var rædd þannig að þessi ákvörðun hefur verið tekin einhvers staðar annars staðar ellegar að mistök hafa orðið við að prenta upp dagskrána.

Mér finnst það alveg með ólíkindum, virðulegi forseti, að maður þurfi að koma hingað trekk í trekk til að vita hvers vegna mál sem eru fullrædd og tekur einungis örfáar mínútur að afgreiða, eru tekin af dagskrá þingsins. Getur verið, virðulegi forseti að framkvæmdarvaldið sé að grípa inn í? Ég bara spyr.

Mér þætti vænt um ef virðulegi forseti mundi svara þessu svo ég þurfi ekki að koma aftur upp undir þessum lið (Forseti hringir.) en ég mun annars halda því áfram.