139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. málsins urðu mjög ítarlegar umræður um flest þau efnisatriði sem hér er getið um. Það hefur líka komið fram opinberlega að viðræður fóru fram milli stjórnmálaflokkanna um að ákveðnar breytingar þyrftu að eiga sér stað á þessu frumvarpi til að greiða fyrir þinglegri meðferð þess og liggur niðurstaða þeirra viðræðna nú fyrir í þessum breytingartillögum og nefndaráliti frá meiri hluta allsherjarnefndar.

Eins og fram hefur komið felst stærsta breytingin í breytingartillögum meiri hlutans. Sú breyting var lögð til varðandi 2. gr. þar sem undirstrikað er að ráðuneyti verði ekki stofnuð, lögð af eða annað eða heitum þeirra breytt nema að undan fari málsmeðferð á Alþingi, málsmeðferð sem mælt er fyrir í sambandi við þingsályktunartillögur. Það liggur fyrir að þarna er komið til móts við sjónarmið margra okkar í stjórnarandstöðunni sem töldum að ekki væri heppilegt og ekki gott eins og frumvarpið gerði ráð fyrir að færa valdið í þessum efnum frá þingi til forsætisráðherra eða ríkisstjórnar, fyrst og fremst þá auðvitað forsætisráðherra. Þarna hefur orðið á veruleg breyting á grundvallaratriðum þannig að þó að vissulega verði málsmeðferðin á þingi öðruvísi en nú er þá verður engu að síður um að ræða málsmeðferð á þingi. Það er forsenda þess að svona breytingar geti átt sér stað að mál hafi fengið þinglega meðferð og samþykki meiri hluta. Það er mikill áfangi og málið batnar verulega við þetta, það vil ég taka fram.

Að sama skapi er það til bóta sem er í breytingartillögum talið upp í 2. tölulið, að við skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta samkvæmt fyrstu málsgrein, eins og þar segir, skuli þess jafnframt gætt að við skiptingu Stjórnarráðsins í ráðuneyti og skiptingu stjórnarmálefna að slík stjórnarmálefni heyri að eðli undir sama ráðuneyti. Þetta er ákvæði sem er í núgildandi lögum en hafði fallið út við frumvarpsgerðina en er nú tekið inn aftur. Það held ég að skipti miklu máli vegna þess að í allri þessari umræðu hafa komið fram ákveðnar áhyggjur af tilflutningi málaflokka milli ráðuneyta en þarna er undirstrikað að allar slíkar breytingar takmarkist af því að slík stjórnarmálefni að eðli heyri undir sama ráðuneyti.

Aðrar breytingar sem hérna eru tilteknar eru veigaminni og krefjast ekki sérstakrar umræðu að mínu mati. Fyrst og fremst er um að ræða orðalagsbreytingar til skýringar og áréttingar einhverra þátta. Þær breytingar eru til bóta en eru ekki veigamiklar. Ég vildi þó geta þess varðandi gildistökuákvæðið í 8. gr., sem felur í sér ákveðnar breytingar, að þar er áréttaður sá skilningur bæði meiri hlutans eins og hann leggur hér fram og okkar í minni hlutanum að það sé eðlilegt að við gildistöku þessara laga breytist ekkert í ráðuneytunum. Til að koma á einhverjum breytingum varðandi ráðuneyti þarf sú málsmeðferð sem mælt er fyrir í 2. gr. að fara fram og felur í sér málsmeðferð þingsályktunartillögu á Alþingi o.s.frv. Ég held að það sé gott og jákvætt að þetta sé skýrt skrifað hérna þannig að ekki þurfi að leika vafi á um það hvernig gildistakan á sér stað og hvaða afleiðingar hún hefur.

Ég ætla ekki að fjalla um önnur efnisatriði í þessu sambandi. Ég vildi bara geta þess að þær breytingartillögur sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur fram eru í anda þess samkomulags sem náðist milli forustumanna stjórnmálaflokkanna. Að mínu mati og minna flokksmanna a.m.k. felur þetta í sér að málið batnar til mikilla muna. Við teljum að svo sé.

Ég vil hins vegar undirstrika, hæstv. forseti, að frumvarpið í heild með þeim breytingum sem þegar eru á því orðnar, m.a. í atkvæðagreiðslum eftir 2. umr. í gær, er stórgallað. Þrátt fyrir að ákveðin atriði hafi verið lagfærð eða lagt til að þau verði lagfærð þá erum við enn þá með frumvarp sem að mörgu leyti er mjög gallað og þar af leiðandi munum við ekki geta stutt það. Við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins munum greiða atkvæði gegn því. Við munum standa gegn þessu máli eftir sem áður þó að við álítum til bóta að þær breytingar nái fram að ganga sem er að finna í þingskjali 1974. Málið er enn þá gallað, málið er enn þá slæmt að mörgu leyti og enn er það skoðun okkar þannig að ég haldi því til haga að heppilegra hefði verið að geyma þetta mál fram yfir 1. október, leggja fram nýtt frumvarp og gefa góðan tíma til að vinna málið í samstarfi og samráði allra stjórnmálaflokka. Það hefði að einhverju leyti mátt byggja á þeim grunni sem þegar hefur verið lagður með undirbúningi þessa frumvarps og því nefndarstarfi sem átt hefur sér stað o.s.frv. Við teljum að það hefði verið betra að byggja á þeim grunni.

Við fögnum því að þessar breytingartillögur eru komnar fram og reyndar bara til að geta þess þá held ég að margt í nefndaráliti meiri hlutans sé ágætt og feli í sér ágætar skýringar á þáttum sem hafa verið ræddir og vísa ég í það. Þó að ég eigi ekki aðild að þessu nefndaráliti þá finnst mér það ágætt. Við sem sagt fögnum breytingartillögunum en við ætlum okkur ekki að styðja þetta mál. Við ætlum okkur ekki að taka ábyrgð á þessu máli þannig að ég á von á því að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins munum að meginstefnu til sitja hjá þegar breytingartillögurnar verða afgreiddar en greiða atkvæði gegn frumvarpinu í heild.