139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Þetta frumvarp og undanfarar þess hafa átt langan og furðulegan feril í þinginu. Málinu hefur hins vegar verið þokað áfram, m.a. með alls konar hrossakaupum sem birtust í furðulegri atkvæðagreiðslu að lokinni 2. umr. þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar lögðust gegn því að sérstaklega væri bókuð afstaða þeirra í öllum málum með þeim rökum að ríkisstjórnin væri ekki fjölskipað stjórnvald. Þetta voru gild rök. Ég var sammála því mati. Sama fólk greiddi hins vegar stuttu síðar atkvæði með því að allt sem sagt væri á fundunum yrði hljóðritað, það mátti ekki skrifa niður afstöðu allra ráðherra en það mátti hljóðrita allt heila klabbið. Þetta er afleiðing af því hvernig þetta mál hefur verið unnið eins og svo margt annað undarlegt í framgangi þessa frumvarps. Tilrauninni til að taka vald af þinginu og færa til framkvæmdarvaldsins var hrundið svo í eðli sínu er málið orðið allt öðruvísi en lagt var upp með.

Í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) er líka eitt og annað gott, reyndar mörg atriði sem horfa til betri vegar, en á því eru engu að síður enn þá mjög stórir gallar og það hvernig að þessu máli hefur verið staðið í þinginu leiðir til þess (Forseti hringir.) að ég get ekki stutt það.