139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

samkomulag um 310. mál, staðgöngumæðrun.

[17:42]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og forseti lýsti hefur orðið samkomulag með þingflokksformönnum um afgreiðslu þessa máls, um heimild til staðgöngumæðrunar. Afstaða fólks til staðgöngumæðrunar er mjög misjöfn og gengur þvert á flokka, allt frá því að banna staðgöngumæðrun eins og lögbundið er í dag og til þess að hún sé heimiluð án mikilla takmarkana.

Staðgöngumæðrun snertir flesta strengi tilfinninga. Hún snertir siðfræði, trúmál, viðhorf til tæknifrjóvgunar, mannréttindi o.fl. sem of langt mál er upp að telja. Fjölda grundvallarspurninga er enn ósvarað svo afstaða fólks geti byggst á upplýstri umræðu. Málið þarfnast yfirvegaðrar umræðu og ræðutíma í þingsal. Þingflokksformenn eru sammála um að í dag sé hvorki tími né aðstæður til þeirrar umræðu sem málið á skilið.

Lagðar hafa verið fram breytingartillögur við þingsályktunartillöguna og reynt hefur verið að ná málamiðlun til að koma til móts við hin ólíku sjónarmið. Því miður hefur það ekki gengið. Því hefur orðið að samkomulagi að málið verði lagt fram að nýju í upphafi nýs þings og sett sem fyrst á dagskrá, að málið fái þann tíma í umræðu sem það þarf og verði afgreitt í góðu tómi á haustþingi, hvorki við lokaafgreiðslu mála fyrir jólahlé né á öðrum álagstímum.