140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

skaðabótamál á hendur Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaga.

[15:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Á síðasta þingi fluttu nokkrir þingmenn, þar á meðal sá er hér stendur, tillögu um að kannaður yrði grunnur fyrir málshöfðun gagnvart Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Því miður fékkst sú tillaga ekki afgreidd í utanríkismálanefnd og hlaut því hvorki umfjöllun né afgreiðslu í þinginu. Hins vegar hefur komið fram skýrsla þar sem reynt var að leggja mat á það tjón sem hryðjuverkalögin ollu Íslendingum og að einhverju leyti var sett tala á tjónið.

Í framhaldi af því lýsti hæstv. forsætisráðherra því yfir að auknar líkur séu á því að höfðað verði skaðabótamál á hendur Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaga. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þær líkur hafi aukist enn frekar, hvort forsætisráðherra ætli að beita sér fyrir því að sett verði í gang vinna við að undirbúa slíka málshöfðun. Ég legg mikla áherslu á að sú vinna verði gerð í samráði og samstarfi við þingið, verði ráðist í hana.

Við munum hins vegar leggja fram þingsályktunartillögu á þessu þingi, vonandi mjög fljótlega þannig að hægt verði að taka afstöðu til þeirrar tillögu. Við höfum tækifæri til að sýna mikla samstöðu, þingið og þjóðin. Ég geri ráð fyrir að flestir vilji láta á það reyna hvort við höfum verið beitt órétti og hvort Bretar skuldi okkur eitthvað meira en hálfa afsökunarbeiðni.

Ég held að það sé mikilvægt að fá svar við því sem allra fyrst.