140. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2011.

skaðabótamál á hendur Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaga.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Það er ekki í fyrsta sinn sem það er gert, eins og hv. þingmaður minnir á, það var skoðað af fyrrverandi ríkisstjórn hvort ástæða væri til að fara í þetta mál með tilliti til þess tjóns sem Ísland varð fyrir. Þeir lögfræðingar sem skoðuðu málið á sínum tíma töldu þó að það væru minni líkur en meiri á því að það mundi skila árangri.

Við höfum nýverið fjallað um málið í ríkisstjórninni og hefur verið ákveðið að þeir lögfræðingar sem haft hafa málið til skoðunar, bæði hjá fjármálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu, fari yfir það aftur með tilliti til stöðunnar nú og meti hvort ástæða sé til að ráðast í málshöfðun. Mér finnst alveg sjálfsagt að haft verði samráð við þingið um málið, það er þess eðlis. Þegar niðurstaða þeirra liggur fyrir finnst mér sjálfsagt að taka það upp í þinginu, væntanlega þá í utanríkismálanefnd, til að fara yfir stöðuna vegna þess að í svona máli er mikilvægt að samstaða sé á milli flokka á Alþingi um hvernig tekið er á hlutunum.