140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

fjárhagsstaða heimilanna -- málefni háskólanna -- ráðning forstjóra Bankasýslunnar o.fl.

[10:53]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég kem upp vegna orða hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur áðan sem lýsti samskiptum þingmanna sín á milli um flutning þingmála, meðflutning og annað slíkt. Það er vissulega rétt sem hv. þingmaður nefndi að þingmenn hafa komið sér upp einhverju kerfi til að skiptast á upplýsingum um hvort menn vilji vera með á tilteknum málum sem þingmenn hyggjast leggja fyrir þingið.

Það er ekkert óeðlilegt við það að þingmenn vilji ræða það við félaga sína, hvort sem þeir eru í þingflokknum eða annars staðar, að vera með á tilteknum málum, áður en þeir taka ákvörðun um það með svari í tölvupósti. Það er fullkomlega eðlilegt. Það getur t.d. verið að innan þingflokka séu fleiri þingmenn með svipuð mál eða sambærileg í vinnslu eða undirbúningi. Það getur vel verið að reynslumeiri þingmenn í þingflokknum gætu uppfrætt, t.d. reynsluminni þingmann eins og mig, um forsögu slíkra mála og hvernig þeir líta á þau. Það getur vel verið að innan stjórnsýslunnar sé unnið að sambærilegum málum og hv. þingmenn óska eftir meðflutningi á. Þannig að ég vara við því að verið sé að reyna að gera það tortryggilegt eða efast um að menn standi heilir í störfum sínum þó að þeir biðji um umhugsunarfrest við að fá að svara hv. þingmönnum um hvort þeir vilji flytja með þeim þingmál. (Gripið fram í.)

Vitnað var í stjórnarskrá um að þingmenn eigi að fylgja eigin sannfæringu. Ég efast ekkert um að þingmenn allir geri það, jafnvel þó þeir vilji ráðfæra sig við samflokksmenn og jafnvel þingmenn úr öðrum flokkum sem hafa flutt sambærileg mál. Mér finnst miklu alvarlegra að þingmenn komi hingað upp í ræðustól og vitni í tölvupósta og hvað felst í þeim samskiptum þó að í þessu tilfelli hafi ekki verið vitnað til þeirra að nafni til. Mér finnst miklu alvarlegra að vitnað sé efnislega í tölvupósta sem þingmenn senda á milli sín, heldur en það sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni.