140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða lögreglunnar og löggæslumála.

[11:13]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér stöðu lögreglunnar og löggæslumála almennt, hvað er brýnast að gera í þeim efnum í dag fyrir utan að ræða kjaramál við lögregluna. Brýnast er að fara í almenna stefnumótun eins og gert er ráð fyrir í þeirri þingsályktunartillögu sem hér verður rædd síðar í dag, fara í stefnumótun um löggæslu á Íslandi og að hún verði ekki unnin eftir flokkspólitískum línum eingöngu heldur í samvinnu við stéttir sem þessum málefnum sinna.

Í öðru lagi þurfum við að leggjast yfir mat á sameiningu löggæsluumdæma, hvernig hefur tekist til, hvort það hafi verið rétt ákvörðun og hvort ganga skuli lengra. Þetta þarf líka að vinnast í samvinnu við hlutaðeigandi aðila. Það þarf að ræða við þær stéttir sem sinna þessum málum til að spyrja þær hvernig til hafi tekist samhliða því að hafa óháð mat á þeirri sameiningu.

Það þarf líka að huga að aðbúnaði og úrræðum lögreglunnar. Eins og þau atriði eru í dag eru þau ekki boðleg, hvorki lögreglunni né umbjóðendum hennar sem hún þarf að hafa afskipti af.

Að lokum, frú forseti, þarf að taka á kjaramálum lögreglunnar. Það er algjörlega ljóst að lögreglan hefur dregist aftur úr miðað við viðmiðunarstéttir. Því þarf að breyta og það þarf að horfa til þessarar stéttar eins og flestra annarra stétta, grunnlaun þurfa að hækka. Það er ekki boðlegt í kjaramálum að eftirvinna og álag hverrar stéttar ráði hækkun launa. Þar verðum við að horfa til þess að grunnlaunin eru þau sem skipta meginmáli, þau þarf að hækka til samræmis við aðrar stéttir og viðmiðunarstéttir lögreglumanna.