140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða lögreglunnar og löggæslumála.

[11:15]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Það væri óskandi að í þessu landi væru störf launuð í samræmi við mikilvægi þeirra. Ég er á því, eins og aðrir sem hér hafa talað, að starf lögreglunnar tilheyri hinum mikilvægari eða jafnvel mikilvægustu störfum í okkar þjóðfélagi og ég tek einlæglega undir þá kröfu lögreglunnar að byrjunarlaun í lögreglunni verði hækkuð. Hvað viðvíkur þeim lögreglumönnum sem komnir eru í hærri launaflokka og kannski lengra frá vettvangsvinnu finnst mér það ekki jafnmikið forgangsmál og með þá sem lægst hafa launin.

Það virðist ekki vera almennt samkomulag um réttlæti í launamálum í þessu landi. Til dæmis finnst mér að barnfóstrur eigi að hafa sömu laun og bankastjórar. En það eru ekki margir á þeirri skoðun með mér að þeir sem gæta þess sem verðmætast er eigi að hafa hærri laun en þeir sem sýsla með peninga og telja baunir.

Varðandi stöðu lögreglunnar fara miklir fjármunir til löggæslu í landinu. Löggæsla er eins og kvikmyndatónlist, hún er best þegar maður tekur minnst eftir henni. Upp á síðkastið hefur löggæslan vakið mikla athygli og það er einkum og sér í lagi í kringum þann ófrið sem orðið hefur hér í þjóðfélaginu. Þar hefur komið fram að lögreglan er ekki í færum til að gegna skyldu sinni.

Í 36. gr. stjórnarskrárinnar stendur:

„Alþingi er friðheilagt. Enginn má raska friði þess né frelsi.“

Þetta hefur lögreglan ekki getað tryggt. (Forseti hringir.) Lögreglan hefur gefið Alþingi Íslendinga fingurinn með því (Forseti hringir.) að neita að standa heiðursvörð hérna fyrir utan, (Forseti hringir.) með því að segjast vera neydd (Forseti hringir.) til að verja Alþingi og það er mjög alvarlegur hlutur.