140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða fangelsismála og framtíðarsýn.

[11:37]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa sérstöku umræðu um fangelsismál. Það er að sönnu rétt að umræður um byggingu fangelsa eru ekki nýjar af nálinni á Íslandi og hefur verið rætt um langa hríð að það hafi verið uppi áform um að stækka fangelsið á Litla-Hrauni. Frekari áætlanir hafa verið gerðar.

Að undanförnu hefur í heimildarákvæðum fjárlaga í tvígang verið gert ráð fyrir því að loka Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og fangelsinu í Kópavogi og koma með nýtt úrræði vegna gæsluvarðhaldsfanga. Í fjárlögum fyrir árið 2012 er gert ráð fyrir slíkri heimild í 12. tölul. 6. gr.

Meginatriðið er auðvitað hver stefnan er til lengri tíma. Hvernig sér ríkisstjórnin fyrir sér að taka næsta skref? Í fjárlögum fyrir árið 2012 er ekki gert ráð fyrir neinum frekari fjármunum til byggingar fangelsis. Það er einungis um að ræða þetta ákvæði í 6. gr. sem núna er að minnsta kosti í annað skiptið í fjárlögunum. Ég kalla eftir stefnu hæstv. ráðherra til lengri tíma. Við höfum heyrt umræður á milli ráðherra í ríkisstjórninni, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. innanríkisráðherra, þegar kemur að fjármögnun þessara framkvæmda.

Ég hef áhuga á að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hann fjármagna þessa þætti þegar að því kemur? Stendur til að hafa þetta algjörlega opinbera framkvæmd eða er hæstv. innanríkisráðherra að líta til einkaframkvæmdar? Hvaða kosti og galla sér hann í þeim tveimur leiðum? Hver er stefnan þegar kemur að þessum hlutum?

Við vitum að við þær aðstæður sem núna eru uppi í þjóðfélaginu eru opinberar framkvæmdir hugnanlegri en oft áður af því að okkur skortir meiri kraft í atvinnulífið. Hvað hefur hæstv. ráðherra að segja um það þegar kemur að byggingu fangelsis? Eru slíkar framkvæmdir til þess fallnar að auka kraftinn í hagkerfinu að mati hæstv. ráðherra? Ég hef áhuga á að fá skoðun hæstv. ráðherra á þessum þáttum, sérstaklega þegar kemur að lengri (Forseti hringir.) stefnumótun í fangelsismálum, fjármögnun og slíkum hlutum.