140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn er bara sá að skuldavandinn er til staðar núna. Það er alltaf mjög gott og nauðsynlegt að hugsa til framtíðar en við eigum við vandamál að stríða núna. Ef við leysum það ekki náum við ekki að setja hlutina á þann stað sem við viljum hafa þá í atvinnulífinu og hjá heimilunum, svo einfalt er það. Hv. þingmaður og aðrir þingmenn sem settu þessa löggjöf á sínum tíma hafa tækifæri á því að leiðrétta það.

Mér finnst vera holur hljómur í því að koma hér upp með almenna stefnumótun um að vernda rétt neytenda með öllu sem því tilheyrir sem hljómar vel í eyrum allra. Ég held við séum sammála um markmiðin hvað það varðar en séum ekki tilbúin til að taka á þeim málum nákvæmlega núna. Hv. þingmaður hefur örugglega fengið pósta eins og við, hv. þingmaður hefur örugglega séð blöðin eins og við, en í dag er mikið fjallað um þetta vegna hópmálssóknarinnar. Sumir geta ekki gert neitt í þessu en við hv. þingmenn höfum tækifæri til að gera eitthvað í málunum. Þess vegna verður það frumvarp lagt fram sem ég mun tala fyrir á eftir.

Það voru gerð mistök. Ég hef ekki fengið nein málefnaleg rök fyrir því að það hafi ekki gerst eftir allan þennan tíma. Ég er nú búinn að setja upp sérstakt reikniforrit á heimasíðu minni til að sýna fram á hvernig í pottinn er búið og við erum búin að taka þessa umræðu núna í marga mánuði. Það eru engin efnisleg rök komin gegn málflutningi okkar sem viljum leiðrétta þetta, (Forseti hringir.) um að við höfum rangt fyrir okkur, síður en svo. Þess vegna spyr ég hv. þingmann af hverju í ósköpunum hún vilji ekki leiðrétta þessi mistök.