140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

fjárframlög utan fjárlagafrumvarpsins.

[13:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er sjálfsagt að fara aðeins yfir þetta með afmælisgjöfina til Háskóla Íslands í ljósi forsögu málsins. Margt skrýtið hefur verið sagt um það undanfarið.

Alþingi ákvað í júní að stofna prófessorsstöðu tengda nafni Jóns Sigurðssonar. Ákvörðunin var byggð á samráði allra flokka og sömuleiðis var tilkynnt að ákvörðun hefði verið tekin um að stofna afmælissjóð við Háskóla Íslands, að framlag í hann á þessu ári yrði 150 millj. kr. og það var afgreitt eftir hefðbundnum farvegi ákvarðana um aukafjárveitingar. Þingmenn vissu um það.

Jafnframt kom skýrt fram í framsöguræðu forsætisráðherra 15. júní að starfshópur yrði settur á laggirnar til að ræða við Háskóla Íslands með fulltrúum ráðuneyta um framhaldið á uppbyggingu afmælissjóðsins og að stefnt yrði að niðurstöðu í því máli fyrir hátíðarfundinn sem var nú á dögunum. Það lá algerlega fyrir strax í júní í hvaða farvegi þetta mál væri og hvernig að því yrði unnið. Þess vegna er undarlegt að það komi mönnum allt í einu eitthvað á óvart í þeim efnum. Það var ekki hægt að taka inn í fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012 sem lokaðist í lok ágúst óorðna niðurstöðu á grundvelli samkomulags við háskólann og á grundvelli tillagna starfshópsins sem skilaði af sér fyrir um tíu dögum. Þannig liggur það. Það lá ljóst fyrir að niðurstaðan af því sem yrði á grundvelli tillagna starfshópsins þegar samkomulag hefði tekist um uppbyggingu afmælissjóðsins til næstu ára yrði síðan að sjálfsögðu tekin inn í fjárlagafrumvarpið í meðförum þess á þingi. Það er fullkomlega eðlilegur framgangsmáti í ljósi þess hvernig þetta mál er vaxið.

Nei, mér er ekki kunnugt um að það sé neitt dregið undan í þeim efnum sem liggur fyrir í formi útgjaldaskuldbindinga, hvorki í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2012 né í fjáraukalögum fyrir þetta ár. Samviskusamlega hefur verið fært inn í það allt sem núna (Forseti hringir.) liggur fyrir um óvænt útgjöld innan ársins, svo sem vegna náttúruhamfara, aðgerða í þágu byggðamála á Vestfjörðum og annað í þeim dúr. Þess mun (Forseti hringir.) sjá stað í fjáraukalagafrumvarpinu sem hefur verið dreift á borð þingmanna.