140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi varðandi viðræðurnar milli Landsbankans og ríkisins um SpKef yrði ég því fegnastur að það kláraðist sem fyrst en við auðvitað reynum að gæta hagsmuna ríkisins eins og mögulegt er um leið og við höfum skuldbundið okkur til, sem eðlilegt er, að það verði fagleg og óháð niðurstaða sem verði lögð til grundvallar, náist ekki einfaldlega samkomulag þar um.

Í tilviki Byrs gerum við okkur að sjálfsögðu vonir um að enginn frekari kostnaður falli á ríkið vegna þess máls og að ríkið fái að uppistöðu til aftur það litla tannfé sem það lagði inn við stofnun Byrs hf. Verði þau áform samþykkt af Fjármálaeftirlitinu og Samkeppniseftirlitinu horfir vel með að ríkið lendi ekki í neinum frekari fjárútlátum vegna þess máls.

Í þriðja lagi varðandi eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs liggja ekki enn fyrir niðurstöður um hverjar afskriftir Íbúðalánasjóðs verða nákvæmlega í tengslum við svokallaða 110%-leið. Við gerum okkur vonir um að það verði nokkuð minni útgjöld en upphaflega var áætlað þannig að eiginfjárstaða sjóðsins verði undir árslok (Forseti hringir.) sterkari en áætlað var að hún yrði þegar 33 milljarða framlagið var sett inn í sjóðinn í lok síðasta árs og meðal annars (Forseti hringir.) áætlað fyrir væntum útgjöldum sjóðsins af þeim sökum. Það liggur því ekki fyrir skýr niðurstaða um það nákvæmlega hver eiginfjárstaðan (Forseti hringir.) verður en skýrari mynd ætti að fást á það á allra næstu vikum.