140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[11:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fjáraukalögum eiga að koma fram allar þær skuldbindingar sem menn búast við að falli á ríkissjóð áður en ríkisreikningur er endanlega kláraður. Það finnst mér ekki vera gert. Ég tek undir það sem hv. þingmenn hafa spurt hér um, um Vaðlaheiðargöng, fangelsi, ég bæti háskólasjúkrahúsinu við og 5,5% iðgjaldi í A-deild LSR, Saga Capital og sitthvað fleira. Og maður spyr sig: Hvers vegna í ósköpunum var Sparisjóður Keflavíkur ekki inni í fjáraukalögum fyrir árið 2011 eða 2010? Þetta lá allt fyrir. Þessi saga er eldgömul, hún er frá því að hæstv. fjármálaráðherra tók við og hann á að hafa vitað þetta allan tímann. Þetta gerðist á hans vakt, eins og kallað var, öll þau ósköp sem við erum að horfa upp á, og á grundvelli yfirlýsingar hans um að innstæður séu tryggðar. Það er engin ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi, það stendur hvergi nokkurs staðar í lögum. Það er bara yfirlýsing hæstv. ráðherra sem hann er núna að borga tugi milljarða fyrir úr vösum skattgreiðenda til fjármagnseigenda. Maður spyr sig því: Hvað er eiginlega í gangi þegar menn hafa þessar skuldbindingar ekki skýrari í fjáraukalögum?

Svo vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvað ríkissjóður „græddi mikið“ á þessum óraunhæfu kjarasamningum sem gerðir voru, vegna þess að ríkið fær heilmiklar tekjur af tryggingagjaldi og tekjuskatti o.s.frv. af þessum tekjum en hefur reyndar útgjöld á móti. Ég kom með frumvarp til fjáraukalaga í vor um lífeyrisútgjöldin, sem var ekki rætt neitt sérstaklega. Ég vil spyrja hann: Hvað græddi ríkissjóður mikið á þessu í heildina?