140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:17]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er ósköp einfalt. Það er ekki það sem hv. fjárlaganefnd hefur ekki fengið upplýsingar um, það er bara misræmið á milli þeirra svara sem öll ráðuneyti Stjórnarráðsins gáfu á tímabilinu febrúar til maí og þeirra skýringa sem er að finna á bls. 78 í fjáraukalagafrumvarpinu. Þess vegna vek ég athygli á því. Ef hv. þingmaður hefur farið í gegnum skýringarnar í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012, sem ég veit að hún hefur gert, sér hún að misræmið verður enn meira æpandi. Það sem ég vek athygli á er að þegar ég setti fram þessar fyrirspurnir í febrúar 2011 voru svörin öll á þann veg að ég ætla að þar sé ekki um nokkra einustu krónu að ræða í styrkjum. Svo sér maður það að í október sama ár kemur inn eitthvert fé í formi aukafjárveitingar. Ég spyr: Af hverju er það ekki upplýst að menn stefni að því að vinna þetta með þessum hætti? Af hverju þurfum við að vinna þetta með þessum hætti? Skýring mín er bara ein: Menn eru ekki búnir að koma sér saman um hvernig á að gefa eða veita þær upplýsingar sem kallað er eftir.

Við þekkjum það öll og getum rætt það alveg kinnroðalaust að það er pólitískur ágreiningur innan flokka, milli ríkisstjórnarflokkanna og hvaðeina, það á ekki að verða til þess að við getum ekki fengið þær upplýsingar á borðið sem við köllum eftir og rætt þær og skipst á skoðunum og svo ræður bara niðurstaða meiri hluta mála við ákvörðun þess. En grundvallaratriði fyrir okkur í fjárlaganefnd til að geta unnið okkar vinnu er það að spurningum okkar sé svarað með heiðarlegum og skilmerkilegum hætti.