140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:28]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég tók líkingu af sóparanum og kústinum vegna þess að hæstv. ráðherra bauð upp á þá umræðu. Ég hef enga tilhneigingu til þess að dæma hann einan fyrir það sem verið er að gera líkt og mér fannst koma fram í máli hæstv. ráðherra við svari mínu áðan. Ég tel að til þess liggi ótal ástæður hvers vegna málum er skipað með þeim hætti sem raun ber vitni um í samskiptum Alþingis og framkvæmdarvaldsins. Ég ætla ekki að benda á einn tiltekinn aðila í þeim efnum og segja að þetta sé allt honum að kenna eins og mér finnst umræðan bera allt of mikinn keim af. Þetta eru samverkandi þættir eins og hæstv. ráðherra hlýtur að gera sér grein fyrir og ég vænti þess að hann fari að láta af þeim talanda að gefa það til kynna að einhver einn tiltekinn aðili beri á því alla ábyrgð einn og óstuddur hvernig gólfið var þrifið eða hve gólfið var óhreint þegar hann þurfti að taka til hendi.