140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:29]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Við erum að ræða um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2011. Ég ætla ekki að fara djúpt í það frumvarp sem liggur fyrir og hefur verið rætt í morgun. Það hefur verið farið ágætlega yfir það, bæði af hálfu hæstv. fjármálaráðherra lið fyrir lið og sömuleiðis þeim sem komið hafa í andsvör og ræður eftir það. Það er því ástæðulaust að eyða miklum tíma í það af minni hálfu enda bíður okkar sú vinna í fjárlaganefnd að fara yfir fjáraukalagafrumvarpið og vinna úr þeim upplýsingum sem þar koma fram.

Fjáraukalagafrumvarp hverju sinni er oft og tíðum ágætismælikvarði eða kompás á það hvernig til hefur tekist við rekstur ríkisins yfir árið, hvort við erum á réttri eða rangri leið í rekstrinum, hvort hefur tekist að halda þær áætlanir sem lagt var upp með í byrjun árs. Það hefur auðvitað gengið á ýmsu í gegnum árin hvað þetta varðar eins og dæmin sýna og verst örugglega í aðdraganda hrunsins þegar útgjöld fóru langt umfram fjárlög þess árs. Ef mér telst rétt til voru á fjáraukalögum á árunum 2006, 2007 og 2008, á því þriggja ára tímabili, aukaútgjöld sem fólu í sér um 75 milljarða kr., þ.e. um 25 milljarðar á ári voru umfram fjárlög hverju sinni. Á þessu kunna auðvitað að vera ákveðnar skýringar og jafnvel sumar skemmtilegar ef menn vilja hafa gaman af en þær bera engu að síður vitni um það að ekki var mikið aðhald í rekstri ríkissjóðs á þeim tíma þegar peningarnir áttu að flæða hér um götur og stræti sem varð kannski til þess að menn voru ekki alveg á vaktinni yfir því hvernig ríkissjóður var rekinn. En eins og ég segi kunna að vera ýmsar ágætar skýringar á því af hverju þetta gerðist og ég ætla ekki að dæma um það, en þetta er hins vegar ágætisdæmi um það að fjáraukalög áranna 2006, 2007 og 2008 áttu að vera vísbending um að menn væru ekki á réttri leið með reksturinn og hefði átt að grípa í taumana, sem ekki var gert.

Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að það fjáraukalagafrumvarp sem við erum að fjalla um er jákvætt fyrir ríkissjóð. Það er vísbending um að við séum á réttri en ekki rangri leið. Þessar upplýsingar hafa legið fyrir og birst okkur jafnt og þétt á árinu úr ýmsum kennitölum héðan og þaðan, frá Hagstofunni, Fjársýslu ríkisins, samskiptum okkar við aðrar þjóðir, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og fleiri. Vísbendingarnar hafa allar verið í sömu áttina: Við erum á réttri leið, við höldum þeirri áætlun sem við ætluðum okkur í rekstrinum og stöndum okkur betur en við höfum held ég gert á undanförnum árum.

Í mánaðaruppgjöri Fjársýslu ríkisins fyrir fyrstu sex mánuði ársins segir, með leyfi forseta:

„Innheimtar tekjur ríkissjóðs í heild námu 214,1 milljarði kr. fyrstu sex mánuði ársins 2011 og voru þær 4,6 milljarða umfram áætlun.“

Á fyrstu sex mánuðum. Síðan kemur fram hér í frumvarpinu að það sé heldur bætt í þá tölu og þar segir, með leyfi forseta:

„Útlit er fyrir að tekjuáætlun ársins 2011 muni ganga eftir og ríflega það. Á fyrstu átta mánuðum ársins eru innheimtar tekjur 3,8% yfir áætluðum tekjum tímabilsins. Sú niðurstaða gefur fullt tilefni til að hækka tekjuáætlun ársins í heild um ríflega 10 milljarða kr. í frumvarpi til fjáraukalaga. Þar af hækka frumtekjur um 9,3 milljarða kr. …“

Þetta eru vísbendingar sem hafa komið í okkar hendur í aðdraganda þessa fjáraukalagafrumvarps og benda til þess að þær áætlanir sem við gerðum í tekjuöflun ríkisins hafi gengið eftir og ríflega það. Þetta eru bara staðreyndir sem blasa við okkur og í sjálfu sér ástæðulaust að þvarga mikið um.

Varðandi útgjöld ríkisins segir í mánaðaruppgjöri Fjársýslunnar fyrir fyrstu sex mánuði ársins, með leyfi forseta:

„Gjöld ríkissjóðs námu alls 249,1 milljarði kr. til júníloka 2011 og voru 2,8 milljörðum kr. undir áætlun sem byggð er á fjárlögum og fluttum heimildum frá fyrra ári.“

Með öðrum orðum undirstrika þessar upplýsingar fyrstu sex mánuðum ársins frá Fjársýslu ríkisins það sem kemur fram í fjáraukalagafrumvarpinu, að tekjurnar eru umfram áætlun og gjöldin eru þar undir.

Það breytir því ekki að í fjáraukalagafrumvarpinu sem við ræðum, eins og í öllum öðrum fjáraukalagafrumvörpum sem hafa verið hér til umræðu á undanförnum árum, eru ýmsar breytingar innan ársins, sumar ófyrirséðar, aðrar beinlínis ákvarðanir um aukin útgjöld til tiltekinna verkefna eins og má finna í þessu frumvarpi, en kannski langstærsti hlutinn af þeim breytingum tengist gerð kjarasamninga fyrr á árinu eða hátt í tvo þriðju þeirra aukaútgjalda í fjáraukalagafrumvarpinu má rekja til þess, eins og áður hefur komið fram.

Þá spyr maður: Var, eins og margir hafa viljað halda fram, of langt gengið? Áttum við ekki að gera kjarasamninga? Var ástæðulaust að ríkið hefði aðkomu að þeim kjarasamningum eða jafnvel frumkvæði að ýmsu því sem þar gerðist? Hér hefur komið fram í ræðum manna í morgun að þetta hafi verið okkur þungt og jafnvel þyngra en menn bjuggust við. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi það í ræðu sinni að líklega mætti merkja það á þessu ári að áhrifin af kjarasamningunum væru um 30 milljarðar kr., þ.e. hækkun á launum til ríkisstarfsmanna og opinberra starfsmanna auk þess sem hækkun á ellilífeyri og örorkubótakerfinu nam talsvert háum upphæðum sömuleiðis. Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að ekki hafi verið undan því komist að gera kjarasamninga á vinnumarkaði í sumar. Ég held að innst inni hafi allir gert sér grein fyrir því hér á þingi og þeir sem komu að rekstri ríkisins og þeir sem glímdu við þann vanda sem hrunið færði okkur haustið 2008. Ég sé engan mun á stjórn eða stjórnarandstöðu hvað það varðar. Ég held að allir hafi gert sér grein fyrir því og horfst í augu við það að kjarasamninga yrði að gera einhvern tímann á þessu tímabili, það yrði ekki hægt að halda launum niðri, hvorki opinberra starfsmanna né annarra, það yrði ekki hægt að frysta bætur eða halda bótum niðri endalaust inn í eilífðina. Það var full nauðsyn á því að mínu mati að leysa þetta vandamál þegar við komum inn í sumarið, ekki til að leiðrétta eingöngu mikilvægustu hlutina eins og kjör þeirra sem hafa orðið fyrir mestu skerðingunum, sem var algjörlega nauðsynlegt, þ.e. leiðrétta kjör örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega með því að auka í bótakerfið, heldur þurfti að auka laun opinberra starfsmanna. Það var að mínu mati algjörlega óumflýjanleg aðgerð sem ríkið átti aðkomu að. Heldur og ekki síður var óumflýjanlegt að skapa þann frið sem það felur í sér að gera kjarasamninga fyrir atvinnurekendur, hið opinbera og launþega til að geta myndað meira svigrúm til að takast á við þann vanda sem við verðum að glíma við.

Ég spyr þá sem gera athugasemdir við þennan stærsta lið útgjaldaaukningarinnar sem felst í fjáraukalagafrumvarpinu: Var þetta óþarfi? Var hægt að komast hjá því að gera þessa kjarasamninga? Var of langt gengið að afgreiða þau mál með því t.d. að hækka bótagreiðslur frá 1. júní í ár út næsta ár þar sem bætur hækka um 12%, verulega umfram verðbólgu? Var ekki um það talað á sínum tíma þegar ráðist var í þessar skerðingar að þeir sem fengju fyrst til baka yrðu þeir sem síst áttu skilið að kjör þeirra væru skert? Ég hélt það. Með þessari ákvörðun erum við í raun og veru að skila til baka hluta af því sem af fólki var tekið með þeim aðgerðum sem gripið var til í upphafi þeirrar áætlunar sem við erum nú að vinna eftir.

Það eru sömuleiðis neikvæðir hlutir í þessu fjárlagafrumvarpi sem við þurfum að taka á með einhverjum hætti, bæði í fjárlaganefnd og innan Stjórnarráðsins í ráðuneytunum. Ég bendi sérstaklega á liði í fjáraukalagafrumvarpinu sem við höfum glímt við áður, í fjárlögum síðasta árs, fjáraukalögum síðasta árs og fjárlögum þessa árs, sem eru sjúkratryggingar og virðist því miður ekki vera hægt að ná utan um það sem þar er að gerast með sómasamlegum hætti. Það er bara verkefni sem við þurfum að ráðast í og að ná utan um. Útgjaldaaukningin þar er of mikil, allt of ófyrirséð og þar virðist ríkja einhvers konar agaleysi — ég segi kannski ekki stjórnleysi en í það minnsta lítil stjórn á útgjöldum. Við erum að sjálfsögðu að tala um háar tölur.

Í frumvarpinu er að finna ýmsa nýja útgjaldaliði tengda aðgerðum í byggðamálum. Ég nefni Vestfirði sérstaklega í þeim málum. Þar hefur verið gripið til aðgerða í vegamálum, skólamálum, umhverfismálum og fleira slíkt sem ég held að allir geti verið sammála um að þurfi að fara í. Í heildina njóta sveitarfélögin góðs af þeirri tekjuöflun sem hefur tekist að ná inn í fjárlög þessa árs, þ.e. þau fá sinn hlut af tekjuöflun ríkisins eins og fram kemur í fjáraukalagafrumvarpinu hér.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns ætla ég ekki að fara djúpt í þetta frumvarp enda gefur tíminn ekki tilefni til þess. Þessi vinna bíður okkar í fjárlaganefnd. Ég er ekki í vafa um að fjárlaganefnd mun taka málið föstum tökum eins og öll þau mál sem til nefndarinnar koma og afgreiða það með sóma.

Aðalmálið er hvaða skilaboð felast í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Heilt yfir, þegar litið er á þær staðreyndir sem blasa við varðandi rekstur ríkisins á þessu ári, er hægt að fullyrða að við erum á réttri leið. Við erum búin að ná betri tökum á rekstri ríkisins, ríkisfjármálum, en áður var. Eins og kom hér fram hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan er útgjaldaaukningin innan við 1%, um það bil 0,8% af áætluðum útgjöldum ársins. Það er langt síðan við höfum séð svo lágar tölur í fjáraukalagafrumvarpi á þingi.

Yfirbragðið er jákvætt. Það er ekki allt jákvætt í frumvarpinu, ekki er allt sem þar liggur fyrir eins og ég vildi sjálfur hafa séð það gerast, en á heildina litið staðfestir fjáraukalagafrumvarpið eins og margt annað sem við höfum fengið í hendur hvað rekstur ríkisins varðar á þessu ári það að við erum á réttri leið. Við höfum náð ágætistökum á ríkisfjármálunum og fjáraukalagafrumvarpið er til vitnis um það að við eigum að halda áfram á sömu braut og við höfum verið á.