140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[12:52]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður hélt því fram að ég bæri enga ábyrgð og ríkisstjórnin bæri að mínu mati enga ábyrgð. Ég ber mína ábyrgð af því fjáraukalagafrumvarpi sem hér er lagt fram. Ég axla ábyrgð á fjárlögum sem voru samþykkt fyrir þetta ár, ekki með vilja hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég ber alla ábyrgð á því, eins mikið og ég get, bæði sem þingmaður, fjárlaganefndarmaður og stjórnarliði. Ég ætla að axla þá ábyrgð og geri það mjög stoltur. Við höfum náð þeim árangri sem hv. þingmaður hnýtir þó hér í. Hv. þingmaður bendir á að skuldbindingar vanti í frumvarpið sem hann þó veit ekkert hverjar eru.

En hvað með reksturinn? Vill hv. þingmaður eyða síðari hluta andsvarsins í að upplýsa mig um álit hans á því hvernig rekstur ríkisins hafi gengið? Hefur hann gengið illa? Hefur hann gengið vel? Höfum við haldið áætlun miðað við það sem við lögðum upp með frá 1. janúar 2011? Erum við á réttri leið, hv. þingmaður, eða erum við á rangri leið? Erum við að missa tökin á ríkisfjármálunum eða höfum við náð einhverjum tökum á þeim? Snýst ekki málið um þetta? Gefur fjáraukalagafrumvarpið okkur ekki upplýsingar um þetta, virðulegi forseti? Ég hélt það. Þess vegna segi ég að fjáraukalagafrumvarp hvers árs sé ágætis áttaviti til að stilla af, til að gefa okkur einkunn um hvernig okkur hefur gengið. Okkur hefur gengið ágætlega, ekki að fullu leyti vel, ég viðurkenni það fúslega. Ég tek mína ábyrgð á því líka, og axla mína ábyrgð ásamt stjórnarliðum, ásamt ríkisstjórninni, á því fjárlagafrumvarpi sem samþykkt var fyrir þetta ár, og á fjáraukalagafrumvarpinu sem við ræðum hér og er vitnisburður um að okkur hefur gengið vel. Ég veit ekkert hvar ábyrgð hv. þm. Péturs H. Blöndals liggur, en ég ætla að axla mína ábyrgð.