140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[13:02]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er nokkuð sammála því sem hv. þingmaður nefndi varðandi áhrif kjarasamninganna á tekjuhliðina og við þurfum að skoða það. Reyndar koma áhrif þeirra á hana ágætlega fram í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég vakti athygli á því í ræðu minni hér áðan að áhrifa þeirra gætir meðal annars inn til sveitarfélaganna í gegnum jöfnunarsjóð þar sem sjóðurinn fær í raun og veru hluta af þeirri tekjuaukningu sem við erum að fá inn, meðal annars út af launahækkunum. Stofn tryggingagjaldsins hækkar sömuleiðis vegna launahækkana o.s.frv., þannig að mikið fer af stað við gerð kjarasamninga eins og gerðir voru í sumar. Það á ekki eingöngu við útgjaldahliðina, eins og hv. þingmaður nefndi sérstaklega áðan, heldur ekki síður við tekjuhliðina. Ég held að við þurfum að fara mjög vel yfir þetta í fjárlaganefnd og ræða það, enda bíður sú vinna okkar þar eftir umræðurnar hér.