140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég geri er einfaldlega þetta: Ég reyni að lesa í þau fátæklegu gögn sem við höfum og þau svör sem við fáum, sem eru mjög rýr. Þau koma of seint og þau eru mjög rýr. Ég vek athygli á því að þessir bankar, sem eru á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra, eru ekki að sýna ársreikninga, þeir sýna ekki stofnefnahagsreikning. Það kemur í ljós í þessum svörum sem við erum með að þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra fái ársreikningana, þá birtir hann þá ekki fyrr en mörgum mánuðum seinna.

Hv. þingmaður spyr hér um eignasafnið og finnst 30 milljarðar há tala. Í hlutfalli af eignasafninu öllu er það gríðarlega há tala. Við gætum kannski gefið okkur að þetta hafi verið 300 milljarða eignir eða 600 milljarða, en nei, þetta voru, ef ég man rétt, 60 eða 70 milljarða eignir, þannig að þetta er alveg gríðarlega há upphæð.

Þegar maður skoðar þá ársreikninga sem hafa verið sýndir og samþykktir áttar maður sig sömuleiðis mjög illa á því hvað hefur gerst. Maður áttar sig líka á illa á því hvernig það getur gerst að þessar tvær stofnanir — að fjármálaráðherra sjálfur segi bara við Bankasýsluna: Nei, ég sé um þetta. Af hverju eru þessar stofnanir í fullum rekstri, í fullri samkeppni, setjandi upp útibú, keppandi um viðskiptavini og geta ekki uppfyllt lögmæt lágmarksskilyrði til að starfa sem fjármálastofnanir? Hvernig má það vera? Og er þetta bara allt í lagi? Af því við bendum á þessar staðreyndir erum við þá að gera hlutina tortryggilega? Vill hæstv. fjármálaráðherra að við sem sitjum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd bara þegjum yfir þessu? Eigum við bara að láta eins og við vitum ekki af þessu til þess að hæstv. ráðherra — sem svarar ekki einu sinni spurningum sem ég hef beint til hans — geti haldið skemmtilegar ræður um (Forseti hringir.) að ástandið sé að batna hér á Íslandi? Það er ekki í miklu samræmi við ástandið eins og það er.