140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek undir með honum að það er ekki auðvelt hlutskipti að hafa ekki atvinnu og þurfa að lifa á þeim atvinnuleysisbótum sem mönnum eru skammtaðar. Ég vil þá kannski spyrja hann frekar út í það hvort hann telji þörf á því að herða eftirlitið til að mynda með því að fólk fari í þá vinnu sem því hugsanlega stendur til boða. Við erum sammála um að slíkt þurfi að gera. Hvort það er nægilegt í dag, maður hefur heyrt sögur af því að menn sem hafa verið að ráða t.d. iðnaðarmenn í vinnu hafi farið inn á atvinnuleysisskrárnar og einu tilfelli komu þrír menn í viðtal og allir réðu sig til vinnu en mættu svo ekki í vinnuna, enginn. Þeir fóru þar af leiðandi tímabundið út af atvinnuleysisskránni en hafa væntanlega farið inn á hana aftur og voru þá hugsanlega að vinna svart.

Ég tel að það þurfi að skoða þetta sérstaklega en auðvitað megum við ekki falla í þá gryfju að láta örfáa einstaklinga eyðileggja fyrir fjöldanum. Það má alls ekki skilja orð mín þannig eða skoðanaskipti okkar hér í þá veru að allir séu settir undir sama hatt, alls ekki, því að auðvitað eru allir sammála um að það er mjög bagalegt fyrir blessað fólkið sem lendir í því að missa atvinnu sína og þarf að vera atvinnulaust og vill vinna.

Fyrst og fremst þetta, hvort hæstv. ráðherra telji að það þurfi að herða eftirlit með því að fólk þiggi vinnu og í öðru lagi hvort hæstv. ráðherra telji koma til greina að fólk sem er atvinnulaust mæti bara til að koma saman og það gæti verið þannig að einhverjir þar inni gætu hugsanlega kennt viðkomandi aðilum eitthvað sem þeir kunna betur, hvort sem það er tungumál, stærðfræði eða guð má vita hvað. Finnst honum koma til greina að fólk þurfi að mæta kannski einhverja tíma í viku, líka til að huga að velferð fólksins í framtíðinni þannig að það sé þá tilbúið að fara í vinnu þegar hún hugsanlega býðst?